Almannarómur – Miðstöð máltækni
Almannarómur er stofnaður í kringum þrjú megin markmið:
- Að tryggja að íslenska standi jafnfætis öðrum tungumálum í tækniheiminum.
- Að vernda íslenska tungu.
- Að stuðla að aðgengi almennings og atvinnulífs að nauðsynlegri tækni.
Almannarómur er miðstöð máltækni, samkvæmt fimm ára samningi við fjármálaráðuneytið og þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti frá árinu 2018. Almannarómur ber ábyrgð á framkvæmd máltækniáætlunar stjórnvalda. Miðstöðin er óháð sjálfseignastofnun.
Við framkvæmd máltækniáætlunar er annars vegar lögð áhersla á smíði og þróun innviða fyrir íslenska máltækni og hins vegar á samstarf við fyrirtæki og stofnanir sem koma máltæknilausnum í notkun hjá almenningi. Rannsóknar- og þróunarhópurinn SÍM (Samstarf um íslenska máltækni) vinnur nú að smíði og þróun innviða fyrir íslenska máltækni.