Stjórnarkjör á aðalfundi Almannaróms
Ný stjórn var kjörin á aðalfundi fulltrúaráðs Almannaróms, miðstöðvar um máltækni. Halldór Benjamín Þorbergsson er formaður stjórnar og segir veigamikil verkefni framundan.
„Verkefni Almannaróms er að tryggja stað íslenskunnar í nýrri tækni. Þetta er virkilega mikilvægt fyrir samfélagið allt enda snýr það bæði að því að vernda tungu okkar og menningararf en ekki síður að því að við sem hér búum getum nýtt að fullu þau tækifæri sem felast í nýrri tækni,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima og formaður stjórnar Almannaróms.
Ásamt Halldóri er stjórnin skipuð þeim Björgvin Inga Ólafssyni, meðeiganda hjá Deloitte, Möggu Dóru Ragnarsdóttur, stafrænum hönnunarleiðtoga hjá Mennsk ráðgjöf, Páli Ásgeiri Guðmundssyni, forstöðumanni efnahags- og samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins, Sverri Norland, rithöfundi og sérfræðingi í samskiptum og sjálfbærni hjá Arion banka, Snævari Ívarssyni, framkvæmdastjóra félags lesblindra, Ragnheiði H. Magnúsdóttur, stofnanda og engafjárfestis hjá Nordic Ignite, Birnu Ósk Einarsdóttur, framkvæmdastjóra markaðssviðs hjá APM Terminals og Pétri Þ. Óskarssyni, framkvæmdastjóra Íslandsstofu. Formaður fulltrúaráðs Almannaróms er Örn Úlfar Sævarsson hugmyndasmiður hjá Ennemm.
Almannarómur hefur frá árinu 2018 haft umsjón með framkvæmd máltækniáætlunar stjórnvalda en fyrr á þessu ári kynnti Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, nýja máltækniáætlun fyrir árin 2024-2026. Á grundvelli fyrri áætlunar var lyft grettstaki í því að byggja tæknilega innviði undir opnum leyfum sem gera innleiðingu íslenskrar tungu í nýja tækni mögulega. Hin nýja máltækniáætlun leggur áherslu á aukna hagnýtingu.
„Nú horfum við til fólks og fyrirtækja að byrja að byggja á þeim innviðum sem eru til fyrir íslensku í tækni og leysa þannig úr læðingi þau tækifæri og verðmæti sem þar leynast. Við hjá Almannarómi hlökkum til samstarfsins,“ segir Halldór Benjamín.