Máltæknilausnir
Í máltækni er tölvutækni nýtt við beitingu tungumálsins og tungumálið nýtt við beitingu tölvutækni. Tilgangurinn er að auðvelda fólki notkun tungumálsins, á fjölda sviða. Hér má sjá yfirlit yfir kjarnalausnir og útskýringar á þeim auk afurða máltækniáætlunar hingað til.

Fyrir forritara
Kjarnalausnir
Markmiðið með þróun talgreinis er að til verði forrit sem geti túlkað eðlilegt tal á íslensku. Talgreiningu er hægt að nota á mörgum sviðum, s.s. í tölvukerfum bíla, í heilbrigðiskerfinu, í þjónustuverum fyrirtækja, í tölvustuddu tungumálanámi, til stuðnings fólki sem vegna fötlunar á erfitt með innslátt texta, en talgreinir gefur notendum kost á að eiga samskipti við tölvustýrð tæki með tali í stað lyklaborðs.
Þróun talgervils miðar að því að hann geti lesið upp íslenskan texta með skýrum og auðskiljanlegum framburði, og eðlilegu tónfalli. Talgervlar fyrir íslensku verða þróaðir þannig að hægt verður að framleiða margar mismunandi raddir. Þannig geta þeir sem vilja bæta sjálfvirkum upplestri eða talsvörun við sín kerfi samþætt talgervingu við sinn hugbúnað.
Í vélþýðingum eru tölvur notaðar til að þýða texta úr einu tungumáli yfir á annað. Vélþýðingar geta þannig flýtt fyrir öllu starfi þýðenda og styrkt stöðu smærri tungumála verulega, með því t.d. að bjóða upp á rauntímaþýðingar á sjónvarpsefni, og draga verulega úr kostnaði.
Hugbúnaður til málrýni getur hjálpað verulega við leiðréttingar á stafsetningu og málfari, og getur veitt margvíslegar leiðbeiningar við textaskrif. Auk þess að nýtast öllum almenningi við almenn skrif getur sérhæfð málrýni nýst fjölbreyttum hópi notenda: starfsfólki fyrirtækja og stofnana, börnum, fólki með íslensku sem annað mál, lesblindum, o.s.frv. Málrýni er líka mjög mikilvæg fyrir þróun annars konar máltæknihugbúnaðar, t.d. leitarvéla og vélþýðinga, og til að gera ljóslesna texta nothæfa í stafrænu umhverfi.
Undir málföng falla málleg gagnasöfn og stoðtól. Málleg gagnasöfn skiptast í texta- og orðasöfn ásamt talgögnum. Þau nýtast til að mynda við þjálfun á mál- og hljóðlíkönum fyrir mismunandi máltæknihugbúnað. Stoðtól eru nauðsynleg til þess að útbúa gögn til notkunar í máltækni, en þau framkvæma einnig grunngreiningu á texta, sem oft er fyrsta skref í flóknari máltæknihugbúnaði. Nægilegt magn viðeigandi gagna og áreiðanleg stoðtól eru grunnur og forsenda allrar þróunar í máltækni.
Hugbúnaðarhirslur fyrir stoðtól.
Hugbúnaðarhirslur fyrir málföng.
Mörkuð íslensk málheild, Gullstaðall.
Mörkuð íslensk málheild, Gullstaðall, þjálfunar- og prófunarsett.
BÍN - Beygingarlýsing íslensks nútímamáls.