Raddir Íslands

Almannarómur, Deloitte og Háskólinn í Reykjavík þróuðu vefinn samromur.is sumarið 2019 en verkefnið unnu háskólanemar, með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Markmiðið með Samrómi er að safna raddsýnum á íslensku, sem eru nauðsynleg til að hægt sé að byggja máltæknihugbúnað á íslensku. Sjá stutt kynningarmyndband um Samróm.

Til að hugbúnaðurinn skilji alla þarf að fá raddsýni sem flestra, á öllum aldri, af öllum kynjum og af ólíkum uppruna. Þú getur farið inn á samromur.is og lagt rödd þína af mörkum í þágu íslenskrar tungu.

Aðgangur að gagnasafni Samróms

Þegar söfnuninni er lokið verður gagnasafnið gefið út með opnu leyfi. Þau sem vilja þróa lausnir fyrir íslenska tungu geta notað gagnasafnið endurgjaldslaust, til að mynda fyrir íslenskt raddstýrt viðmót í tækjum og tólum, lestrarþjálfun, rauntímatextun á sjónvarpsefni og rauntímaþýðingar. Til að fá aðgang að gagnasafninu skal hafa samband við skrifstofu CLARIN á Íslandi.

Þú getur lesið meira á vef Clarin á Íslandi

Taka þátt

Á vef Samróms geta allir sem hafa aðgang að síma, tölvu eða spjaldtölvu gefið raddsýni. Viðkomandi opna vefinn og smella á „Tala“. Þá birtir vefurinn lesurum setningu sem þau lesa upphátt með eðlilegum hætti. Að lestrinum loknum fer upptakan í gagnasafn Samróms. Með sameiginlegu átaki verður hægt að skapa gagnasafn sem nægir til þess að standa undir þróun í máltækni fyrir íslensku um ókomna tíð.

Samstarf við atvinnulífið

Framkvæmdaáætlun Almannaróms leggur áherslu á að rannsókna- og þróunarhópurinn leiti frekara samstarf við atvinnulíf, í því skyni að fyrirtækni geti hraðað uppbyggingu þekkingar innan sinna veggja og þar með þróun máltæknilausna fyrir viðskiptavini.

Einnig viljum við stuða að því að rannsakendur geti fengið innsýn í þarfir notenda og að almenningur komist nær því að geta átt samskipti og viðskipti á móðurmálinu.