Máltækniáætlun
Við framkvæmd máltækniáætlunar leggur Almannarómur áherslu á að byggja upp þekkingu í máltækni á Íslandi og leggja þannig grundvöll að nýsköpun á þessu sviði. Kjarnalausnirnar sem koma út úr grunnrannsóknum máltækniáætlunar geta fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar nýtt til að þróa vörur og þjónustu á íslensku. Í því skyni verða allar afurðir grunnrannsókna máltækniáætlunar gefnar út undir óafturkræfum opnum leyfum sem heimila hvers kyns hagnýtingu.
Leyfiskeðjan verður skýr, allt sem fer inn í kjarnalausnirnar þarf að hafa skilgreind leyfi, allt sem kemur út geta fyrirtæki og stofnanir, nýsköpunarsamfélagið og alþjóðleg tæknifyrirtæki nýtt, án þess að þurfa að greiða fyrir það. Þegar gögn og kjarnalausnir eru tilbúnar hjá rannsóknar- og þróunaraðilum afhenda þeir miðstöð CLARIN á Íslandi afurðirnar. Þar geta fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar nálgast þær til hagnýtingar í sinni þróun.