Hugverkaréttindi, hagnýting niðurstaðna og afurða

Meginmarkmið máltækniáætlunar er að þróa kjarnalausnir og aðrar afurðir sem verða aðgengilegar frumkvöðlum, fyrirtækjum, stofnunum og almenningi, öllum að kostnaðarlausu.

Því hafa allir rannsakendur sem koma að framkvæmd máltækniáætlunar skuldbundið sig til að allur hugbúnaður sem til verður innan verkefnisins verði gerður aðgengilegur með svokölluðum opnum leyfum, svo sem Apache 2.0 leyfi eða sambærilegu eða rýmra leyfi.

Hagnýting hugbúnaðarlausna

Hugsanlega þarf að byggja á öðrum leyfum vegna réttinda þriðja aðila eða vegna notkunarskilmála sem tengjast tilteknum gögnum. Í þeim tilvikum skal það leyfi sem notað er ekki fela í sér meiri takmarkanir en þörf krefur.

Leyfi þurfa að lágmarki að uppfylla þau skilyrði að vera ótímabundin, á heimsvísu, óháð gjaldtöku af nokkru tagi og óafturkræf svo fremi sem skilmálar eru að öðru leyti virtir. Þá þarf slíkt leyfi að heimila þriðja aðila ótakmarkaða hagnýtingu á hugbúnaðarlausnum sem þróaðar eru með notkun á gögnunum, án þess að áskilið sé að gögnin sjálf verði hluti af slíkum lausnum eða aðgangur að gögnunum sé nauðsynlegur svo að slíkar lausnir verði notaðar með viðeigandi hætti.

Framkvæmdaaðilar

Framkvæmdaaðilar sem Almannarómur hefur ráðið til þróunar máltæknilausna ábyrgjast að enginn hugbúnaður og/eða gögn sem notaður er við smíði lausnanna brjóti gegn hugverkaréttindum þriðja aðila. Þá hafi slíkur hugbúnaður og gögn ekki að geyma hluta sem háðir eru slíkum réttindum og/eða leyfum. Í þeim undantekningartilvikum þar sem nauðsynlegt kann að vera að nýta hugverk í eigu rannsakenda eða þriðja aðila við gerð máltæknilausna skulu framkvæmdaaðilar afla allra tilskilinna leyfa frá eigendum hugverkanna.

Opin notkunarleyfi

Apache 2.0 leyfið

Leyfið gildir um hugbúnað sem gerður er aðgengilegur á grundvelli skilmála þess.

Leyfið er ótímabundið (perpetual), á heimsvísu (worldwide), án einkaréttar leyfishafa (non-exclusive), án fasts gjalds og afnotagjalds (no-charge og royalty-free), óafturkræft (irrevocable) nytjaleyfi sem nær til alls höfundarréttar í hugbúnaðinum og tekur það til af- og endurritunar, nýtingar með viðbótum, opinberrar birtingar, opinberrar notkunar, veitingar undirleyfa og dreifingar hvort heldur sem er í formi frumkóða (source code) eða viðfangskóða (object code) hugbúnaðarins.

Engar takmarkanir eru á viðskiptalegri hagnýtingu hugbúnaðarins.

Leyfishafa er heimilt að gefa út viðbætur eða afleidd verk undir annars konar (og m.a. þrengri) leyfum.

Þú getur lesið meira um leyfið hér.

CC BY 4.0 leyfið

Leyfið gildir um texta og gögn sem annaðhvort höfundarréttur eða gagnagrunnsréttur gildir um og sem gerð eru aðgengileg á grundvelli skilmála þess.

Leyfið er á heimsvísu (worldwide), endurgjaldslaust (royalty-free), án einkaréttar leyfishafa (non-exclusive), óafturkræft (irrevocable) nytjaleyfi, sem gildir eins lengi og höfundarréttur og/eða gagnagrunnsréttur er í gildi í tengslum við þann texta og/eða gögn, sem um ræðir.

Engar takmarkanir eru á viðskiptalegri hagnýtingu textans og gagnanna.

Notandi textans eða gagnanna getur ekki gert textann eða gögnin aðgengileg með skilmálum, sem eru þrengri eða meira takmarkandi en CC BY 4.0 leyfið.

Þú getur lesið meira um leyfið hér.