Framkvæmdaaðilar

Rannsókna- og þróunarhópurinn SÍM (Samstarf um íslenska máltækni) sér um fyrsta stig gagnasöfnunar og mótun svokallaðra kjarnalausna í samræmi við samning Almannaróms við SÍM sem er til eins árs í senn. Að SÍM standa tíu lögaðilar – rannsakendur úr háskólasamfélaginu, opinberar stofnanir og frumkvöðlar úr atvinnulífinu.

Samstarf við atvinnulíf

Í framkvæmdaáætlun Almannaróms er lögð áherslu á að rannsókna- og þróunarhópurinn leiti frekara samstarfs við atvinnulíf, í því skyni að fyrirtæki geti hraðað uppbyggingu þekkingar innan sinna veggja og þar með þróun máltæknilausna fyrir viðskiptavini; rannsakendur geti fengið innsýn í þarfir notanda; almenningur öðlist betri færni í samskiptum og viðskiptum á móðurmálinu.

 • Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

  Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum vinnur að rannsóknum á sviði íslenskrar tungu og menningar, miðlar þekkingu á þeim fræðum og varðveitir ýmis söfn á fræðasviði sínu. Stofnunin var í fararbroddi í uppbyggingu og þróun íslenskrar máltækni í kringum síðustu aldamót og hefur stýrt viðhaldi á helstu gagnasöfnum á því sviði, svo sem Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, Markaðri íslenskri málheild og nú síðast Risamálheild. Stofnunin tekur virkan þáttí máltækniáætlun stjórnvalda og hefur þar einkum það hlutverk að byggja upp og þróa ýmis málleg gagnasöfn, svo sem Risamálheildina, samhliða málheild íslensku og ensku o.fl.

  Þátttaka í kjarnaverkefnum

  • Málföng
  • Stoðtól
  • Vélþýðingar
 • Blindrafélagið

  Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, stofnað 1939, er samfélagslegt afl – mannréttindasamtök – sem berst fyrir því að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu, innihaldsríku og ábyrgu lífi, og að þeim sé tryggður jafn réttur og jöfn tækifæri til ábyrgrar, virkrar og viðurkenndrar þátttöku í öllum þáttum samfélagsins. Blindrafélagið hefur barist fyrir og tekið þátt í að tryggja að íslenska verði stafrænt tungumál. Möguleikar blindra og sjónskertra Íslendinga til að vera samfélagslega virkir í nútíma stafrænu umhverfi byggjast á því að fullnægjandi máltæknilausnir séu fyrir hendi á íslensku.

  „Stuðningur til sjálfstæðis“ eru einkunnarorð félagsins.

 • Creditinfo

  Fjölmiðlavakt Creditinfo er leiðandi í greiningu á umfjöllun net-, prent-, ljósvaka- og samfélagsmiðla. Áskrifendur að Fjölmiðlavaktinni fá tilkynningar í tölvupósti þegar fréttir tengdar fyrirtækjum eða leitarorðum sem þeir vakta birtast í fjölmiðlum. Þannig má vakta og greina umfjöllun um fyrirtæki eða málefni sem eru áskrifendum mikilvæg. Með svokölluðu fréttaskori má fá enn dýpri innsýn í vægi tiltekinnar umfjöllunar og með innihaldsgreiningu eru fréttir greindar eftir því hvort þær hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á orðspor áskrifenda. Á þjónustuvef Fjölmiðlavaktarinnar má jafnframt nýta sér ýmis greiningartól og yfirgripsmikið fréttasafn.

  Þátttaka í kjarnaverkefnum

  • Taltækni
 • Grammatek

  Grammatek ehf. var stofnað árið 2018. Fyrirtækið vinnur að þróun máltæknilausna og leggur áherslu á að þær megi hagnýta. Starfsfólk vinnur að máltæknirannsóknum sem og að hugbúnaðarþróun, enda hefur það sterkan og alþjóðlegan bakgrunn á þessum sviðum. Leitast er við að nota þá tækni sem hentar hverri lausn og að afurðir nýtist mismunandi kerfum og tækjum. Innan rannsóknar- og þróunarhópsins SÍM sér Grammatek um verkefnisstjórn, auk þess að taka beinan þátt í rannsóknum og þróun.

  Þátttaka í kjarnaverkefnum

  • Málföng
  • Taltækni
 • Hljóðbókasafn Íslands

  Hljóðbókasafn Íslands var stofnað árið 1982 og heyrir undir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hlutverk þess er að gera bækur aðgengilegar fyrir blinda, sjónskerta, lesblinda eða þá sem eiga erfitt með prentað letur og sjá þeim fyrir bókasafnsþjónustu. Allir lánþegar þurfa að skila inn vottorði um að þeir glími við prentleturshömlun enda er safnið aðgengissafn og ekki opið öllum.

  Markmið Hljóðbókasafns Íslands eru í sífelldri endurskoðun til samræmis við öra þróun og framfarir í tækni og vísindum.

  Þátttaka í kjarnaverkefnum

  • Taltækni
 • Rannsóknarstofan Mál og tækni við Háskóla Íslands

  Rannsóknarstofan Mál og tækni við Háskóla Íslands vinnur að verkefnum sem tengja saman mál og tækni með áherslu á sjálfvirka málfarsráðgjöf (t.d. prófarkalestur), málheildir (einkum trjábanka) og þáttun, máltækniinnviði og tengingar milli máls, samfélags og tækni. Lögð er áhersla á rannsóknir sem tengjast íslensku með aðferðum sem eru að jafnaði óháðar tilteknum tungumálum.

  Þátttaka í kjarnaverkefnum

  • Málrýni
 • Mál- og raddtæknistofa Háskólans í Reykjavík

  Við Háskólann í Reykjavik var stofnuð Mál- og raddtæknistofa Háskólans í Reykjavík árið 2016 og starfar stofan innan Gervigreindarseturs HR með það að markmiði að stunda rannsóknir og þróun á tali og máltækni. Rannsóknirnar snúast um að finna mynstur í tali og texta, búa til nýja þekkingu á því hvernig tal- og ritmál verður til, hvernig best sé að vinna með það og greina, og hvernig hægt sé að nota þá þekkingu til að skilja tungumál. Markmið stofunnar er að dýpka fræðilega þekkingu og þróa kerfi sem gerir fólki kleift að nota tungumál í samskiptum sínum við tölvur. Við tölvunarfræðideild er boðið upp á meistaranám í máltækni og sinna meistaranemar margvíslegum verkefnum tengdum viðfangsefnum Mál- og raddtæknistofu.

  Þátttaka í kjarnaverkefnum

  • Taltækni
  • Stoðtól
  • Vélþýðingar
 • Miðeind

  Miðeind ehf. er sprotafyrirtæki sem vinnur að máltækni og gervigreind fyrir íslensku. Tækni Miðeindar gerir kleift að vinna með íslenskan texta og talmál í tölvum, símum og öðrum tækjum. Meðal annars má nota hana til að vinna upplýsingar upp úr texta, lesa yfir stafsetningu og málfar, þýða texta milli íslensku og annarra tungumála, svara spurningum, búa til samantektir o.m.fl. Hugbúnaður Miðeindar er opinn og nýtist almenningi, atvinnulífi og rannsakendum. Miðeind rekur m.a. Netskraflið og vefinn Greynir.is, og gefur út radd-appið Emblu sem fáanlegt er fyrir iPhone og Android síma.

  Þátttaka í kjarnaverkefnum

  • Stoðtól
  • Málrýni
  • Vélþýðingar
 • Ríkisútvarpið

  Ríkisútvarpið er útvarp allra landsmanna. Meginmarkmið þess er að upplýsa, fræða og skemmta. RÚV leggur sérstaka rækt við íslenska tungu, sögu þjóðar, menningararfleifð og tengsl við almenning. RÚV leggur áherslu á að sinna börnum og ungmennum af metnaði og skrásetur samtímasögu þjóðarinnar í hljóði og mynd með varðveislu alls dagskrárefnis. Hljóðritanir, filmur, myndefni og aðrar sögulegar minjar eru aðgengilegar almenningi í safni RÚV. RÚV tekur virkan þátt í máltækniáætlun stjórnvalda með því að leggja til aðstöðu til upptöku og veita aðgang að efni úr safni sem nýtist til að kenna vélum íslensku.

  Þátttaka í kjarnaverkefnum

  • Taltækni
 • Tiro

  Tiro ehf., stofnað 2016, er sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, smíði og viðhaldi tæknilausna á sviði tölvugreindar, talgreiningar og máltækni. Tiro hefur þróað og smíðað sérhæfða talgreina fyrir heilbrigðisþjónustu sem og rauntíma textasetningu fyrir sjónvarpsveitur og fleira. Tiro er fyrsta íslenska fyrirtækið til að bjóða almenningi aðgang að talgreini fyrir íslenskt talað mál á vefsvæði fyrirtækisins. Til viðbótar býður Tiro upp á sérhæfðar lausnir fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga sem og aðgang að forritaskilum fyrir talgreiningu.

  Þátttaka í kjarnaverkefnum

  • Taltækni

Viltu vita meira?

Þau sem eru áhugasöm um verkefnin, vilja byggja á þeim eða leggja sitt af mörkum, eru hvött til að hafa samband við verkefnastjóra SÍM.

Anna Björk Nikulásdóttir
Netfang: [email protected]
Sími 897-6642