Almannarómur: miðstöð máltækni

Almannarómur er miðstöð máltækni og ber ábyrgð á að framkvæma máltækniáætlun samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið frá árinu 2018. Máltækniáætlun er til fimm ára og hófst vinna við kjarnaverkefnin formlega 1. október 2019.

Áætlunin er fjármögnuð af fjárlögum og er rekstur Almannaróms hluti hennar. Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands og velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO, eru verndarar Almannaróms.

Almannarómur var stofnaður árið 2014 í því augnamiði að tryggja að máltæknilausnir verði smíðaðar fyrir íslensku.

Stofnaðilar voru Advania, Arion banki, Blindrafélagið, Borgun hf., Creditinfo Lánstraust hf., Háskólinn í Reykjavík, Hugsmiðjan ehf., Icelandair Group, Íslandsbanki hf., Já Upplýsingaveitur hf., Landsbankinn, Nýherji hf., Orkusalan ehf., Rarik ohf., Samtök atvinnulífsins, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Tryggingamiðstöðin hf., Tæknivörur, Vátryggingafélag Íslands hf., Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. og Öryrkjabandalag Íslands. Síðar bættust Hið íslenska bókmenntafélag, Háskóli Íslands, Miðeind og Snjallgögn í hópinn.

Almannarómur er sjálfseignarstofnun með fulltrúaráð sem hefur það hlutverk að fylgjast með rekstri og vera tengiliður milli stjórnar og þeirra aðila sem standa að stofnuninni. Fulltrúaráð kýs stjórn og skoðunarmenn reikninga. Formaður fulltrúaráðs er Örn Úlfar Sævarsson.

Stjórn Almannaróms var kjörin á aðalfundi fulltrúaráðs 24. júní 2024

Formaður stjórnar: Halldór Benjamín Þorbergsson

Meðstjórnendur: Björgvin Ingi Ólafsson, Magga Dóra Ragnarsdóttir, Páll Ásgeir Guðmundsson, Snævar Ívarsson og Sverrir Norland.

Varamenn: Birna Ósk Einarsdóttir, Pétur Þ. Óskarsson og Ragnheiður H. Magnúsdóttir.

Framkvæmdastjóri Almannaróms er Lilja Dögg Jónsdóttir.

Þróun máltæknilausna

Alls eru 2,2 milljarðar settir í fyrsta stig þróunar máltæknilausna fyrir íslenska tungu. Þar af er rúmur 1,3 milljarður ætlaður í rannsóknir og þróun kjarnaverkefna í máltækni, sem er samheiti yfir þær kjarnalausnir sem eru grundvöllur allrar frekari máltækniþróunar á íslensku.

Almannarómur hefur umsjón með þessu fjármagni og semur við framkvæmdaaðila um smíði kjarnalausna.

Kjarnalausnirnar

Talgreining – að tæknin geti hlustað á og skilið íslensku
Talgerving – að tæknin geti lesið og talað íslensku
Vélrænar þýðingar – að tæknin geti þýtt texta af og yfir á íslensku
Málrýni – að tæknin geti leiðrétt ritaðan texta
Málföng – gögn um íslensku og stoðtól

Markmið Almannaróms

  • Að tryggja að íslenska verði jafnoki annarra tungumála í stafrænni tækni
  • Að vernda íslenska tungu
  • Að tryggja að fyrirtæki og almenningur hafi aðgang að máltækni

Gæðastjórnun

Almannarómur ber ábyrgð á að afurðir máltækniáætlunar verði að öllu leyti fullnægjandi til að frumkvöðlar, fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar geti nýtt þær við smíði máltæknilausna á íslensku fyrir notendur.

Í því skyni hefur Almannarómur sett saman fagráð sem samanstendur af virtum alþjóðlegum sérfræðingum á sviði máltækni. Fagráðið skipa þau Bente Maegaard, Kadri Vider og Steven Krauwer.

Hlutverk fagráðs er að vera framkvæmdastjóra Almannaróms til ráðgjafar hvað varðar tæknilega útfærslu kjarnaverkefna. Þannig rýnir fagráð ítarlega tæknilýsingu samstarfssamnings Almannaróms og SÍM, í samhengi við fimm ára máltækniáætlun og þróun tæknilausna í máltækni alþjóðlega. Þá hefur fagráð einnig það hlutverk að rýna áfangaskýrslur rannsóknar og þróunarhópsins SÍM, áður en greiðslur vegna framkvæmdar geta farið fram.

Um fagráð

Bente Maegaard

Bente Maegaard er fyrrverandi forstöðumaður Center for Sprogteknologi (Máltæknimiðstöðvar) innan stofnunar norrænna fræða og málvísinda við Kaupmannahafnarháskóla. Hún var varaframkvæmdastjóri CLARIN ERIC máltæknisamstarfsins árin 2012-2018. Sérsvið hennar eru einkum rannsóknarinnviðir, málföng og stoðtól, vélrænar þýðingar, mat og stjórnun. Bente hefur stýrt fjölda danskra og evrópskra rannsóknarverkefna. Hún er formaður ESFRI Strategy Working Group for Social and Cultural Innovation 2019-2021. Hún var varaformaður samtakanna Digital Humanities in the Nordic countries frá stofnun þeirra árið 2015 til 2020.

Kadri Vider

Kadri Vider er sérfræðingur í máltækni við tölvunarfræðideild háskólans í Tartu í Eistlandi. Hún er einnig landsfulltrúi Eistlands fyrir CLARIN ERIC og framkvæmdastjóri eistnesku málfangamiðstöðvarinnar. Kadri hefur mikla reynslu af mótun og vinnu við máltækniáætlanir fyrir tungumál sem eiga undir högg að sækja líkt og eistneska, og var stjórnandi eistnesku máltækniáætlunarinnar sem er ein af fyrirmyndum máltækniáætlunar fyrir íslensku.

Steven Krauwer

Steven Krauwer er emeritus við Utrecht-háskóla í Hollandi. Hann nam stærðfræði og almenn málvísindi í Utrecht og Kaupmannahöfn og var kennari og sérfræðingur í stærðfræðilegum og tölvunarfræðilegum málvísindum við málvísindastofnun Utrecht-háskóla uns hann fór á eftirlaun 2011. Steven stýrði og tók þátt í fjölda verkefna á vegum Evrópusambandsins, einkum innan vélrænna þýðinga og annarra sviða innan mál- og taltækni. Steven hefur verið í stýrihópi Foundation for Endangered Languages (Miðstöð tungumála í útrýmingarhættu) frá árinu 2005. Eftir að hann hætti störfum við Utrecht-háskóla varð hann fyrsti framkvæmdastjóri CLARIN ERIC, miðstjórnar CLARIN (Common Language Resources and Technology Infrastructure). Þegar því starfi lauk árið 2015 gerðist Steven ráðgjafi aðalstjórnar CLARIN.