Verkefni Almannaróms

Almannarómur starfar eftir samningi við menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið og gegnir hlutverki miðstöðvar máltækni á Íslandi. Verkefni miðstöðvarinnar eru fjölbreytt og fela í sér áframhaldandi uppbyggingu máltækniinnviða, stuðning við hagnýtingu máltækni í íslensku atvinnulífi og öflugt alþjóðlegt samstarf við erlend stórfyrirtæki og alþjóðastofnanir.

Innviðir

Almannarómur verkstýrir innviðaverkefnum í máltækni fyrir hönd ráðuneytisins. Þau eru fjölbreytt en fela í sér þróun á grunntækni fyrir ýmsa samskiptamáta við tæki, söfnun gagna og þróun aðferða til að mæla getu ýmissa gervigreindarmállíkana til að skilja og mynda íslensku.

Innviðaverkefnin eru flest framkvæmd af rannsakendum og sérfræðingum í máltækni með margra ára reynslu af vinnu við íslenska máltækni, bæði innan og utan máltækniáætlana. Árnastofnun, Háskóli Íslands og Háskóli Reykjavíkur í samstarfi við einkaaðila á borð við Miðeind, Tiro og Grammatek hafa unnið að innviðaverkefnum máltækniáætlana auk fleiri.

Hægt er að nálgast íslensk gagnasöfn og hugbúnað undir opnum leyfum á málbankanum.is, GitHub og Hugging Face.

Hagnýting og innleiðing

Almannarómur leggur áherslu á að styðja fyrirtæki og stofnanir við innleiðingu á tækni á íslensku.

Snemma á árinu 2025 styrkti Almannarómur sérstaklega innleiðingu máltæknilausna hjá fyrirtækjum og stofnunum í samvinnu við menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið. 12 verkefni voru styrkt fyrir samtals 60 m.kr. Öll verkefnin fela í sér innleiðingu og/eða hagnýtingu á íslenskri máltækni í samræmi við máltækniáætlun 2. Styrkjunum er ætlað að styðja við þróun og innleiðingu hagnýtra endalausna sem byggja á máltækni. Styrkveiting er háð því að verkefni styðji við meginmarkmið máltækniáætlunar um að gera íslensku gjaldgenga í stafrænum heimi og stuðli að aukinni notkun á íslensku í tæknivörum og hugbúnaði.

Alþjóðlegt samstarf

Almannarómur leggur ríka áherslu á samstarf við erlend stórfyrirtæki, alþjóðastofnanir og aðrar erlendar gervigreindar- og máltæknimiðstöðvar til að auka veg og tækifæri íslensks máltæknistarfs. Aðferðir Íslands við máltækniáætlanir þar sem ríki hefur tekið málin í eigin hendur og hafið gagnasöfnun fyrir tungumál sitt hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og skapað landinu sérstöðu í miðri alþjóðlegri gervigreindarbyltingu.

Samstarf Íslands við OpenAI, sem fyrirtækið Miðeind koma á, hefur einnig vakið mikla athygli. Samstarfið fólst í að þjálfa mállíkanið ChatGPT 4 á íslenskum gögnum, með góðum árangri en íslenska var fyrsta tungumál utan ensku sem líkanið var þjálfað sérstaklega á fyrir útkomu þess vorið 2023.

Almannarómur á einnig í ríku samstarfi við Microsoft um að bæta getu lausna þeirra í íslensku en gervigreindarlausnin Microsoft Copilot kom út á íslensku í júní 2025.

Samnorræn gervigreindarmiðstöð - New Nordics AI

Almannarómur er einn af stofnaðilum nýrrar norrænnar gervigreindarmiðstöðvar sem komið verður á fót í október 2025. Að miðstöðinni kemur ein stofnun frá hverju Norðurlandanna en ásamt Almannarómi eru það AI Sweden (Svíþjóð), AI Finland (Finnland), Digital Dogme (Danmörk) og IKT-Norge (Noregur). Stefnt er að því að baltnesku löndin muni einnig ganga til liðs við stofnunina þegar fram líða stundir.

Miðstöðin mun hafa starfsfólk í öllum aðildarlöndunum en einnig sameiginlegar höfuðstöðvar sem stefnt er að því að verði í Stokkhólmi í Svíþjóð.

Stofnun miðstöðvarinnar hefur verið í undirbúningi frá árinu 2024 og verður að stórum hluta fjármögnuð af norrænu ráðherranefndinni, sem hefur veitt verkefninu styrk upp á rúmlega 550 milljónir króna.

Samstarf við UNESCO

Almannarómur leiðir alþjóðlegan samstarfsvettvang sem stuðlar að fjölbreytni tungumála í gervigreind, sem Ísland og UNESCO komu á í sameiningu vorið 2024. Reynsla Íslands af því að tryggja stafræna framtíð tungumáls síns er þar í forgrunni.

Markmiðið er að samstarfsvettvangurinn verði vettvangur helstu hagaðila; fleiri þjóðir með tungumál sem standa höllum fæti í heimi tækninnar hafa verið fengnar að borðinu auk þess sem reynt verður að tryggja aðkomu stórra tæknifyrirtækja að vettvangnum. Þar er markmiðið að hagaðilar komi saman og útbúi staðlaðar aðferðir við öflun gagna, framsetningu þeirra og meðferð, fyrir fjölda tungumála. Þá kveður viljayfirlýsingin á um að til verði samnýtt opið safn einmála gagnasafna á ýmsum tungumálum á stöðluðu sniði sem má nota til þjálfunar á gervigreindarmállíkönum og bæta getu þeirra í hinum ýmsu tungumálum.

Viltu vita meira?

Þeir sem eru áhugasamir um verkefni Almannaróms, vilja leggja þeim lið eða taka þátt í starfinu að einhverju marki, eru hvattir til að hafa samband í netfangi [email protected].