Skerfur
Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir í Skerf - sjóð sem styrkir verkefni sem fela í sér innleiðingu og/eða hagnýtingu á íslenskri máltækni, í samræmi við áætlun um íslenska máltækni 2.0.
Umsóknarfrestur í Skerf er til miðnættis 31. desember 2024
Á þessari síðu má finna úthlutunarreglur sjóðsins og rafrænt eyðublað til umsóknar í úthlutun veturinn 2024-2025.
Skerfur veitir styrki til verkefna sem fela í sér innleiðingu og/eða hagnýtingu á íslenskri máltækni, í samræmi við áætlun um íslenska máltækni 2.0.
Til ráðstöfunar veturinn 2024-2025 eru 60.000.000 kr. Opnað var fyrir umsóknir 2. desember 2024 og er umsóknarfrestur til og með 31. desember 2024. Umsóknum skal skila með rafrænni umsókn sem nálgast má á eftirfarandi hlekk: Rafræn umsókn um úthlutun úr Skerf veturinn 2024-2025.
Styrkjum er úthlutað til verkefna sem styðja við innleiðingu eða þróun hagnýtra endalausna sem byggja á máltækni. Styrkjum er því ekki úthlutað til verkefna sem miða að þróun eða viðhaldi grunninnviða máltækni. Styrkirnir eru samkeppnisstyrkir og er úthlutað til eins árs í senn.
Styrkveiting er háð því að verkefni styðji við meginmarkmið máltækniáætlunar um að gera íslensku gjaldgenga í stafrænum heimi og að stuðla að aukinni notkun á íslensku í tæknivörum og hugbúnaði.
Verkefnastjórn máltækniáætlunar leggur mat á umsóknir og verður m.a. horft til þátta á borð við:
- Mikilvægis verkefnis fyrir hagnýtingu íslenskrar máltækni og/eða mikilvægis verkefnis fyrir innleiðingu nýrra vara, nýrrar þjónustu eða nýrra hugbúnaðarlausna sem nýta máltækni
- Mikilvægis verkefnis fyrir aukna verðmætasköpun/bætta þjónustu.
- Skalanleika verkefnis, þ.e.a.s. hvernig umsækjandi sér það þróast, stækka og nýtast fleirum með það að markmiði að innleiðingin eða hagnýtingin bæti framboð tækni á íslensku og/eða auki þjónustu.
- Gildi og ávinnings fyrir stöðu íslenskrar tungu í tækni
Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér reglur um úthlutun styrksins sem finna má neðar á þessari síðu.
Opnað var umsóknir 2. desember 2024 og er umsóknarfrestur til og með 31. desember 2024.
Rafrænt umsóknareyðublað má nálgast hér.
Verkefnastjórn máltækniáætlunar þannig skipuð:
- Lilja Dögg Jónsdóttir, formaður, skipuð af Almannarómi
- Magga Dóra Ragnarsdóttir, skipuð af Almannarómi
- Hallgrímur J. Ámundason, skipaður af menningar- og viðskiptaráðherra
Umsækjendur eru vinsamlega beðnir að hafa ekki samband beint við fulltrúa í verkefnastjórn máltækniáætlunar. Fyrirspurnum og ábendingum skal beina á netfangið [email protected].
Úthlutunarreglur Skerfs
Almannarómur fer með umsýslu styrkja menningar- og viðskiptaráðuneytisins til innleiðingar og hagnýtingar íslenskrar máltækni.
Um styrkina gilda reglur nr. 1147/2024 frá menningar og viðskiptaráðherra sem birtust í Stjórnartíðindum 16. október 2024.
Til viðbótar þeim skilyrðum sem þar koma fram skal verkefnastjórn máltækniáætlunar skilgreina reglur úthlutunar og áherslur hverju sinni. Fyrir fyrstu úthlutun sjóðsins veturinn 2024-2025 eru þær eftirfarandi.
Skerfur - Innleiðingar- og hagnýtingarstyrkir máltækniáætlunarReglur um úthlutun 2024-2025
1. gr.
Styrkhæfi verkefna
Styrkir úr Skerf verða eingöngu veittir verkefnum sem styðja við meginmarkmið máltækniáætlana stjórnvalda um að gera íslensku gjaldgenga í stafrænum heimi og að stuðla að aukinni notkun á íslensku í tæknivörum og hugbúnaði.
Styrkjum er úthlutað til verkefna sem styðja við innleiðingu eða þróun hagnýtra endalausna sem byggja á máltækni. Verkefni sem miða eingöngu að þróun eða viðhaldi grunninnviða máltækni eru ekki styrkbær.
2. gr.
Umsóknir
Umsókn skal skilað með rafrænum hætti á netfangið [email protected] á þar til gerðu umsóknareyðublaði. Verkefnastjórn tekur ekki til umfjöllunar umsóknir sem berast eftir öðrum leiðum, né umsóknir sem berast utan auglýsts tímafrests. Umsókn skal innihalda eftirtalin gögn og upplýsingar eftir því sem við á:
- Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur.
- Upplýsingar um aðra þátttakendur og samstarfsaðila.
- Nafn verkefnisstjóra (þess sem annast samskipti við verkefnastjórn).
- Nákvæm lýsing á verkefni, markmiðum þess og þýðingu fyrir umsækjanda og aðra.
- Nákvæm lýsing á því hvernig verkefnið uppfyllir skilyrði í grein 1 um styrkhæfi verkefna.
- Lýsing á því hvernig árangur verkefnisins verði metinn.
- Tíma- og verkáætlun.
- Fjárhagsáætlun, þar sem m.a. koma fram upplýsingar um áætlaðan kostnað, fjármögnun, hlutdeild annarra í kostnaði við verkefnið og styrki sem verkefnið hefur hlotið eða hefur sótt um. Mótframlag frá umsækjanda þarf að vera að lágmarki 50%.
- Staðfest gögn frá samstarfsaðilum sem og önnur gögn til stuðnings umsókn.
- Upplýsingar um kyn umsækjanda.
- Upplýsingar um að umsækjandi sé ekki í vanskilum við innheimtumann ríkissjóðs.
3. gr.
Viðmið við úthlutun
Við mat á umsóknum er verkefnastjórn heimilt að leita umsagna fagaðila, gerist þess þörf. Auk skilyrða um styrkhæfi sem getið er 1. gr, munu eftirtalin atriði vega inn í mat á umsóknum og ákvörðun úthlutana.
Nýsköpun og nýnæmi
- Mikilvægi verkefnis fyrir hagnýtingu íslenskrar máltækni og/eða mikilvægi verkefnis fyrir innleiðingu nýrra vara, nýrrar þjónustu eða nýrra hugbúnaðarlausna sem nýta máltækni
- Mikilvægi verkefnis fyrir aukna verðmætasköpun/bætta þjónustu.
Ávinningur
- Gildi og ávinningur fyrir stöðu íslenskrar tungu í tækni
- Gildi og ávinningur fyrir ákveðna notendahópa og samstarfsaðila verkefnisins.
- Skalanleiki verkefnis, þ.e.a.s. hvernig umsækjandi sér það þróast, stækka og nýtast fleirum með það að markmiði að innleiðingin eða hagnýtingin bæti framboð tækni á íslensku og/eða auki þjónustu.
Faglegir þættir
- Gæði verkefnis, þ.m.t. hvort markmið og skipulag verkefnis séu skýr, hvernig markmiðum verkefnis verði náð og hvernig árangur verði metinn.
- Faglegur bakgrunnur umsækjanda og annarra þátttakenda.
- Fjárhagslegur grundvöllur verkefnis og önnur fjármögnun.
- Samstarf sem er mikilvægt fyrir verkefnið.
4. gr.
Úthlutun og skilmálar.
Verkefnastjórn máltækniáætlunar 2 hefur það hlutverk að meta umsóknir í samræmi við áherslur sem fram koma í almennum úthlutunarreglum menningar- og viðskiptaráðuneytis og í ofantöldum reglum um úthlutun 2024-2025. Verkefnastjórn gerir tillögur til ráðherra um úthlutun og ráðstöfun fjár til verkefna.
Tilkynna skal öllum umsækjendum um afgreiðslu viðkomandi umsóknar. Við móttöku á styrk ábyrgist styrkþegi að honum verði einungis varið til þess verkefnis sem getið er um í umsókn. Jafnframt skuldbindur hann sig til að skila greinargerð um árangur verkefnisins og fjárhagsuppgjöri skv. samningi. Styrkþegi skal auk þess hlíta öðrum þeim skilmálum sem fram koma í reglum þessum eða eru tilgreindir sérstaklega í samningi.
Um upplýsingagjöf og uppgjör segir í 7. gr. úthlutunarreglna ráðuneytisins.
Styrkjum er úthlutað til eins árs í senn. Nýti styrkþegi ekki styrk innan þess tíma fellur styrkurinn niður, nema sérstaklega sé sótt um frestun á ráðstöfun hans. Umsókn þess efnis skal vera skrifleg og rökstudd.
Styrkþegi má ekki vera í vanskilum við innheimtumann ríkissjóðs og skilar stöðuyfirliti þar um og má ekki vera á vanskilaskrá Creditinfo.
Þegar ákvörðun hefur verið tekin um úthlutun birta ráðuneytið og Almannarómur nöfn styrkþega, heiti verkefnis og upphæð styrks á vef sínum.Samþykkt af verkefnastjórn máltækniáætlunar
Reykjavík, 26.11.24
Reglur ráðuneytisins má finna á eftirfarandi hlekk:
Reglurnar voru birtar í Stjórnartíðindum þann 16. október 2026. Mikilvægt er að umsækjendur um styrkinn kynni sér þessar reglur vel og tryggi að verkefni sem sótt er um falli að þeim.