Viljayfirlýsing um stórbætt stafrænt aðgengi fatlaðs fólks með hjálp íslenskrar máltækni

Almannarómur, menningar- og viðskiptaráðuneytið, ÖBÍ réttindasamtök og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hafa undirritað viljayfirlýsingu um að vinna saman að stórbættu stafrænu aðgengi fatlaðs fólks með hjálp íslenskrar máltækni.

Viljayfirlýsingin byggir á greiningu sem unnin var af ráðgjafafyrirtækjunum Sjá og Mennsk um þarfir fatlaðs fólks fyrir vörur og hugbúnað sem byggja á máltækni. Greiningin var kynnt hagaðilum í vikunni en hana má finna í heild sinni á vef menningar- og viðskiptaráðuneytisins.

Aðgerðirnar sem skilgreindar eru í viljayfirlýsingunni eru eftirfarandi:

1. Upplýsingagátt

Unnið verður að því að koma á fót upplýsingagátt þar sem teknar verða saman helstu lausnir óháð því hvaða hópum þær gagnast. Það er lykilatriði að fólk geti með auðveldum hætti kynnt sér hvaða lausnir eru í boði og gætu gagnast þeim.

Ábyrgð: ÖBÍ

2. Lausnir í kennslu

Aðgengi að upplýsingum um lausnir sem nýta má í kennslu verður aukið. Þar er bæði átt við búnað en einnig smáforrit og aðrar lausnir. Unnið verður að því að þróa umhverfi til fjarnáms fyrir fjarkennslu íslensks táknmáls með þróun námsefnis sem hentar til tölvustuddrar tungumálakennslu.

Ábyrgð: MMS

3. Íslenskur talgervill - samtal við fyrirtæki um lausnir

Halda áfram þróun á talgervilslausnum með íslenskum röddum. Mikilvægt er að í boði sé lausn á öllum helstu miðlum. Ljóst er að Apple umhverfið er styst á veg komið þegar kemur að íslensku og afar mikilvægt að gera bragarbót þar á.

Ábyrgð: Almannarómur

4. Raddbanki fyrir íslenskar raddir

Leitast verður við að styðja við stofnun raddbanka hjá Háskóla Íslands. Mikilvægt er að greiða veg verkefnisins, ræða við þróunaraðila og kanna samstarfsmöguleika ólíkra aðila.

Ábyrgð: Almannarómur

5. Þýðingar á mikilvægum forritum

Stuðlað verður að auknum þýðingum á helstu forritum sem fatlað fólk notar í daglegu lífi og hefja samtal við þróunaraðila slíkra forrita. Dæmi um slík forrit eru leiðsöguforrit, skipulagsforrit og þjálfunar- og sjúkdómsgreiningarforrit.

Ábyrgð: ÖBÍ

Það er ljóst að þessar aðgerðir geta haft mikil og jákvæð áhrif fyrir marga og mikilvægt að vel verði haldið á framkvæmdinni. Það má því fagna því sannarlega fagna því að verkefnin séu komin í farveg!