1,4 milljarða samstarfsverkefni stóreflir gervigreindarinnviði Íslands

1,4 milljarða samstarfsverkefni stóreflir gervigreindarinnviði Íslands

Evrópska miðstöðin EuroHPC Joint Undertaking hefur veitt íslensku samstarfsverkefni styrk upp á ríflega 700 milljónir króna til að koma á fót miðstöð á Íslandi fyrir gervigreind og stórvirka tölvuvinnslu (e. HPC). Verkefnið er leitt af Almannarómi í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Vísindagarða HÍ, Veðurstofu Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Miðstöðin mun bjóða upp á aðgang að reikniafli, gervigreindarhugbúnaði, gagnasöfnum og sérfræðiráðgjöf til að þróa, þjálfa og prófa nýjar lausnir á sviði gervigreindar. Stuðningurinn er hugsaður fyrir aðila sem eru með lausnir á þróunarstigi og brúar rekstrarbil þar til þær verða tilbúnar í almennan rekstur.

„Þessi tíðindi marka tímamót og allir sem lagt hafa hönd á plóg eiga mikið hrós skilið. Enn og aftur sjáum við kraftinn í íslenska vísinda- og nýsköpunarsamfélaginu, sem skilar sér í þessum risastyrk. Hér stígum við stórt skref inn í framtíð þar sem Íslendingar verða fullgildir þátttakendur í gervigreindarbyltingunni og geta gripið tækifærin sem í henni felast,“ segir Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.

Sérstaklega verður horft til lausna á sviði heilbrigðismála, loftslags- og umhverfisrannsókna, endurnýjanlegrar orku, framleiðslu- og verkfræði og opinberrar stjórnsýslu, þar sem máltækni og íslensk tunga verða áhersluþættir sem ganga þvert á starfið. Miðstöðin verður með starfsstöð á skrifstofu Almannaróms í Vísindagörðum HÍ í Grósku.

„Við ætlum að auðvelda fyrirtækjum og stofnunum að prófa sig áfram í hagnýtingu gervigreindar með greiðum og gjaldfrjálsum aðgangi að reikniafli og sérfræðiþekkingu,“ segir Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms. „Með samstarfi þessara ólíku stofnana bjóðum við breiðan þekkingargrunn og frábæra aðstöðu sem við erum sannfærð um að muni skapa tækifæri og verðmæti fyrir íslenskt samfélag“.

Tengjum Ísland við eina af öflugustu ofurtölvum Evrópu

Styrkurinn veitir aðgang að umfangsmiklu neti evrópskra gervigreindarverksmiðja (e. AI Factories) og er fjármagnað af Horizon Europe-áætlun Evrópusambandsins. Íslenska miðstöðin verður tengd við LUMI AI Factory í Finnlandi, þar sem ein öflugasta ofurtölva Evrópu er staðsett. Verkefnið miðar að því að veita íslenskum sprotum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum og opinberum stofnunum beinan aðgang að nýjustu og bestu gervigreindarinnviðum og -þekkingu sem völ er á í Evrópu. Verkefnið nýtur stuðnings menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins og styður beint við framkvæmd Aðgerðaáætlunar um gervigreind 2025-2027, sem menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið gaf út í sumar. Lögð verður sérstök áhersla á ábyrga og trausta gervigreind í samræmi við evrópsk lög og reglur á sviði gervigreindar og persónuverndar.

Á meðal hæfustu umsækjenda

Heildarumfang verkefnisins er um 1,4 milljarðar íslenskra króna og er styrkt að helmingi af EuroHPC JU en íslensku samstarfsaðilarnir leggja til hinn helminginn í formi vinnu, húsnæðis og verkefnafjármagns. Íslenska umsóknin var metin á meðal þeirra allra bestu sem bárust sjóðnum en alls hlutu 13 verkefni í Evrópu styrki til að koma á fót svæðisbundnum miðstöðvum sem tengjast stærri gervigreindarverksmiðjum á borð við LUMI.

LUMI hefur lengi verið ein öflugasta ofurtölva Evrópu en nýlega var umfang og umgjörð starfsemi í kringum hana stækkuð þegar hún kom af stað þjónustu sinni sem gervigreindarverksmiðja (e. AI Factory), styrkt af EuroHPC JU. Hægt er að lesa nánar um þjónustu LUMI AI Factory hér.

Slíkum gervigreindarverksmiðjum er verið að koma á laggirnar víða um Evrópu, sem hluta af víðtækri áætlun sambandsins í málefnum gervigreindar. Stofnunin Euro HPC JU hefur nú komið 19 gervigreindarverksmiðjum af stað á vegum áætlunarinnar.

Til viðbótar við gervigreindarverksmiðjurnar hefur stofnunin nú úthlutað styrkjum fyrir svokallaðar landsmiðstöðvar (e. AI Factory Antennas) sem þjóna sem eins konar útibú eða tengingar gervigreindarverksmiðjanna við önnur svæði. Íslenska miðstöðin verður þannig landsmiðstöð Íslands með tengingu við LUMI AI Factory.

Um samstarfsaðila verkefnisins

Um er að ræða umfangsmikið samstarfsverkefni sex lykilstofnana á Íslandi sem sameina fjölbreytta sérþekkingu og öfluga innviði sem þegar eru til staðar á sviði gervigreindar og stórtæka tölvuúrvinnslu.

Almannarómur gegnir hlutverki verkefnisstjóra og samhæfingaraðila og sér um verkefnastjórn, upplýsingamiðlun og stuðning við uppbyggingu vistkerfis gervigreindar á Íslandi. Almannarómur er einnig stofnaðili samnorrænu gervigreindarmiðstöðvarinnar New Nordics AI sem styrkir norrænt samstarf og ábyrga þróun gervigreindar.

Árnastofnun er leiðandi rannsóknarstofnun í máltækni. Hún heldur úti Íslenska málbankanum, opinberu safni íslenskra málgagna sem nýtast við rannsóknir og þróun á máltæknilausnum og íslenskum mállíkönum. Með samstarfinu verður stutt við notkun íslensku í tækniheiminum með því að stækka og efla þessi gagnasöfn svo þau nýtist enn betur við þróun á íslenskum gervigreindarlausnum. Sérfræðingar Árnastofnunar í máltækni og gervigreind vinna einnig að rannsóknum og mælingum á íslenskugetu gervigreindarlíkana og hvernig hægt er að bæta hana.

Háskóli Íslands (HÍ) er leiðandi í stórtækri tölvuúrvinnslu og hefur síðustu ár tengt saman vísindamenn, iðnað og stofnanir sem nota stórtæka tölvuúrvinnslu í rannsóknum og nýsköpun, í gegnum verkefnið IHPC. Háskólinn gegnir einnig lykilhlutverki í menntun á sviði gagnavísinda og hefur gríðarlega reynslu af stórum evrópskum samstarfsverkefnum.

Háskólinn í Reykjavík (HR) býður upp á hágæða meistaranám í gervigreind, þar sem lögð er áhersla á siðferðilega nálgun á gervigreind í samræmi við evrópsk gildi. HR býður upp á frábæra og sérhæfða aðstöðu til rannsókna, þróana og prófana á gervigreindarlausnum, t.d. fyrir sýndarveruleika, gervigreind fyrir vélmenni og svefnrannsóknir.

Vísindagarðar Háskóla Íslands bjóða upp á aðstöðu fyrir höfuðstöðvar verkefnisins í Mýrinni nýsköpunarsetri og samfélagi frumkvöðla, þar sem koma saman nýsköpunarfyrirtæki, sprotar og rannsóknarhópar. Þar verður hýst öflugt og lifandi gervigreindarstarf í kringum verkefnið og stefnt að því að koma upp gervigreindarbúðum (e. AI Campus) á verktímanum.

Veðurstofa Íslands er leiðandi í notkun gervigreindar við loftslags-, náttúruvár- og umhverfisrannsóknir, meðal annars í gegnum þátttöku sína í Destination Earth verkefninu og sem aðili að Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa, ECMWF. Hér verður byggt á þeirri sérþekkingu sem þar hefur skapast til þróunar á öflugri og nákvæmari reiknilíkönum fyrir umhverfisrannsóknir.

Saman munu samstarfsaðilar verkefnisins byggja upp nýja samhæfða innviði fyrir íslenska gervigreind, efla þekkingu hér á landi í þróun og þjálfun háþróaðra gervigreindarlausna og mynda betri tengsl við helstu sérfræðinga á þessu sviði innan Evrópu.