Íslendingasögurnar gefnar út á rafrænu formi

Íslendingasögurnar gefnar út á rafrænu formi

Almannarómur hefur, fyrir hönd íslenska ríksins, fest kaup á netbirtingarrétti heildarútgáfu Íslendingasagna og þátta og mun vinna að rafrænni útgáfu þeirra í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á næstu misserum. Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms, og Jóhann Sigurðsson, eigandi Sögu forlags, skrifuðu undir samning þess efnis inni á nýrri handritasýningu Árnastofnunar í Eddu í síðustu viku.

Útgáfan sem birtingarrétturinn nær til var gefin út á prenti í fimm bindum árið 2018 í tilefni 100 ára afmælis fullveldisins. Í henni eru Íslendingasögurnar 40 og þættirnir 51 á nútímastafsetningu og þeim fylgjavandaðar orðskýringar, vísnaskýringar og nafnaskrá auk sagnalykils, greina og myndskreytinga.

„Okkar hlutverk er að styrkja stafræna framtíð íslenskrar tungu og þetta er stór liður í því; að gera einhverja allra mikilvægustu texta sem til eru á okkar tungumáli aðgengilega á stafrænu formi. Með útgáfunni færum við þjóðinni menningararfinn í hendur og gerum fólki kleift að nálgast hann svo til hvar og hvenær sem er. Jafnframt skapast tækifæri til að byggja á sögunum í sinni stafrænu mynd og nýta þær með skapandi hætti, til dæmis í kennslu,“ segir Lilja Dögg.

Miðað er við að hefja vefútgáfuna með einni sögu snemma árs 2026. Sú útgáfa verður notuð til að fá reynslu á útgáfuformið og til að afla endurgjafar frá helstu notendahópum áður en ráðist verður í heildarútgáfu verkanna á vefnum. Stefnt er á að bjóða upp á ýmsa nýja virkni á vefnum, með hjálp máltækni- og gervigreindarlausna.

Textarnir verða gefnir út með tiltölulega opnum leyfum, þar sem þeir verða aðgengilegir til niðurhals. Textum verkanna verður einnig komið fyrir í þar til gerðum gagnasöfnum og þeir þannig gerðir nothæfir til þjálfunar á gervigreindarmállíkönum og til annarrar tækninotkunar.

„Með því að gera sögurnar aðgengilegar nýjustu gervigreindartækni opnum við tækifæri til að gera þær enn aðgengilegri almenningi. Það er auðvitað þjóðþrifamál fyrir okkur að þessi tækni, sem nú tröllríður öllu, hafi bestu mögulegu þekkingu á okkar merka menningararfi og sérstöðu, eins og hún gerir sjálfkrafa hjá stærri þjóðum,“ segir Lilja Dögg.