Fyrirtæki nýti gögn, stoðtól og hugbúnað máltækni

Í nýlegri grein í Viðskiptablaðinu brýnir framkvæmdastýra Almannaróms, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, fyrir íslensku atvinnulífi að nýta kjarnalausnir í máltækni. Greinin er svohljóðandi:

Máltækniáætlun hefur það markmið að tryggja að íslenska verði nothæf og notuð í stafrænum heimi. Til þess var nauðsynlegt að byggja upp innviði máltækni, gögn og stoðtól fyrir máltæknihugbúnað. Við upphaf áætlunarinnar voru sérfræðingar í máltækni á Íslandi fáir.

Í dag starfa ríflega 60 manns við rannsóknir og þróun í máltækni fyrir íslensku. Stór hluti þessa vaxandi mannauðs þarf á næstu misserum að færa sig um set, úr fræðasamfélaginu yfir í atvinnulífið, meðal annars til fyrirtækja á neytendamarkaði.

Yfir til ykkar

Fjöldi máltæknilausna er nú kominn á þann stað að atvinnulífið getur nýtt þær til hagnýtingar, nýsköpunar og til að búa til verðmæti. Allir innviðir máltækniáætlunar eru gefnir út undir opnum leyfum, með leyfi til hagnýtingar. Fyrirtæki geta því nýtt þessi gögn, stoðtól og hugbúnað til að búa til lausnir sem skapa verðmæti; með því að selja lausnirnar og með því að veita viðskiptavinum betri þjónustu. Aðeins þannig tryggjum við nauðsynlega yfirfærslu máltækni til notenda, samfélagsins alls.

Verðmætasköpun og betri þjónusta

Röddin er eðlilegasti samskiptamáti mannkyns og notkun hennar í samskiptum við og í gegnum tölvur gerir samskiptin, og aðgengi að upplýsingum, auðveldara. Til að íslenska verði áfram til í stafrænum, sítengdum heimi þurfum við að geta notað tungumálið á sem flestum sviðum daglegs lífs, til að mynda til að gefa tækjum raddskipanir á móðurmálinu.

Máltækni er líka miðlæg þegar tryggja þarf mannréttindi fólks með fatlanir, þannig að það hafi aðgengi að upplýsingum á sínu tungumáli. Fyrir marga er máltækni mikilvægur samskiptamáti sem er meðal annars notaður til stýringar tækja.

Nýleg Evrópulöggjöf gerir þá kröfu að allt efni á vefsíðum hins opinbera sé aðgengilegt fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarskerta og heyrnarlausa. Þessa staðla þurfa íslenskar vefsíður að uppfylla fyrr en síðar og þar munu máltæknilausnir skipta sköpum. Þá er fyrirséð að samskonar Evrópulöggjöf muni eiga við um fyrirtæki í einkageiranum.

Atvinnulífið og Máltækni 2.0

Sú fimm ára máltækniáætlun stjórnvalda sem er nú í framkvæmd hófst fyrir tæpum tveimur árum – og ef fram heldur sem horfir mun henni ljúka á þremur árum.

Þó að áframhaldandi uppbygging og viðhald innviða máltækni sé nauðsyn þarf meginþungi næstu máltækniáætlunar að vera á færslu þekkingar og tækni úr háskólasamfélaginu yfir í atvinnulífið. Tryggja þarf aðkomu atvinnulífsins að þeirri áætlun með hvatakerfi og virku samstarfi háskóla og fyrirtækja.

Notendur máltæknilausna eru viðskiptavinir fyrirtækja og stofnana, sem þekkja þarfir þeirra best. Atvinnulífið er því best til þess fallið að finna lausnir á þörfum samfélagsins á máltækni og útfæra verkfæri sem eru byggð á þeim nauðsynlegu innviðum sem verða til í máltækniáætlun.

Gervigreind og máltækni

Við erum ekki bara í miðri máltæknibyltingu, við erum líka í miðri gervigreindarbyltingu. Gervigreind mun umbylta okkar daglega lífi og störfum, og verða miðlæg þegar kemur að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Framfarir í máltækni nýtast á sviði gervigreindar og jafnvel má segja að máltækni fyrir íslensku sé ein af forsendum aðlögunar gervigreindartækni fyrir íslensku. Tæknilausnir máltækniáætlunar nýtast því í tækniumhverfi nútímans um leið og þær byggja grunn til framtíðar. Það er því ljóst að máltækni fyrir íslensku verður ein af stoðum samkeppnishæfni fyrirtækja, stofnana og íslensks atvinnulífs á komandi árum.

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir