Opið fyrir umsóknir um styrki til þróunar máltæknilausna

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki Rannís til verkefna í þróun máltækni.

Fyrirtæki og stofnanir hvött til að sækja um

Skilyrði er að þær lausnin sem styrktar séu þurfi að standa notendum til boða innan tveggja ára. Fyrirtæki og stofnanir í atvinnulífinu eru sérstaklega hvött til að sækja um í sjóðinn en hlutverk hans er að koma innviðum máltækni í notkun í samfélaginu. Það gerist fyrst og fremst í gegnum þau fyrirtæki og stofnanir sem þjónusta notendur slíkra lausna.

Markáætlun í tungu og tækni

Styrkirnir eru hluti opins samkeppnissjóðs undir umsýslu Rannís sem heitir Markáætlun í tungu og tækni. Sú áætlun styður, eins og nafnið gefur til kynna, verkefni sem hafa það að markmiði að gera íslensku gjaldgenga í upplýsingatækni og stuðla að notkun hennar á þeim vettvangi. Áherslur sjóðsins, samkvæmt ákvörðun Vísinda- og tækniráðs, eru á að koma máltæknilausnum í almenna notkun.

Sótt um hjá Rannís

Umsækjendur eru beðnir að kynna sér vel reglur Markáætlunar í tungu og tækni áður en hafist er handa við gerð umsóknar. Umsóknum skal skilað rafrænt í gegnum umsóknarkerfi Rannís. Markáætlun í tungu og tækni er opinn samkeppnissjóður sem starfar samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir (nr. 3/2003 með áorðnum breytingum).

Umsóknarfrestur er 28. apríl 2022 kl. 15:00.