Í smáforriti fyrirtækisins aha.is er hægt að leita að matvöru og öðrum vörum með því að tala íslensku við símann. Þessa lausn ákvað fyrirtækið að þróa upp á eigin spýtur til þess að geta boðið viðskiptavinum sínum betri þjónustu og til að auka aðgengi að henni.
Þetta frumkvæði að gerð nýrrar máltæknilausnar var verðlaunað í gær á ráðstefnu Almannaróms og Samtaka atvinnulífsins, „Tölum um framtíðina“. Þar veitti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fyrstu Máltækniverðlaunin en þau eru hugsuð sem hvatningarverðlaun fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir til að nýta sér möguleika máltækninnar.
Samfélagsleg skylda íslenskra fyrirtækja
Við afhendinguna sagði Maron Kristófersson, forstjóri aha.is:
„Það er samfélagsleg ábyrgð okkar sem erum að hanna og búa til tækni að gera okkar besta til að skila af okkur betra umhverfi en við komum að - hvort sem það snýr að loftslagsmálum, tungumálum eða öðru. Okkur fannst því sjálfsagt að í hönnun nýs snjallforrits væri íslenska grunnþáttur í þeirri þróun. Þegar við pöntum mat þá getum við núna gert það á íslensku. Það tók okkur kannski tvö, þrjú skipti að venjast því en eftir það tekur þetta svona fimm sinnum styttri tíma en það gerði áður.“ Hann sagði jafnframt nauðsynlegt að líta til þess að börnin okkar tali ensku við tækin núna, og jafnvel sín á milli á ensku í tölvuleikjum, þó allir séu íslenskumælandi. Þörfin á máltæknilausnum fyrir íslensku væri því aðkallandi.
Máltækni frá mörgum hliðum mannlífsins
Afhending verðlaunanna var lokapunktur á vel sóttri ráðstefnu sem fjallaði um máltækni í atvinnulífi og samfélagi. Eins og titillinn ber með sér var máltækni rædd frá mörgum hliðum, til dæmis sem spennandi möguleika til að bæta þjónustu, til að aðstoða starfsfólk sem hefur íslensku sem annað tungumál í að æfa sig í að tala íslensku og sem nauðsynlega tækni til að tryggja aðgengi allra hópa þjóðfélagsins að upplýsingum og auka getu til tjáskipta.
Atvinnulífið hvatt til dáða
Í pallborðsumræðu brýndi menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, atvinnulífið til að taka þær lausnir sem orðið hefðu til með máltækniáætlun ríkisins og búa til lausnir til að vernda tungumálið, efla samkeppnishæfni þjóðarinnar og bæta líf fólks. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði íslensk fyrirtæki taka þeirri áskorun alvarlega og að vænta mætti notkun máltækni í mun meira mæli í náinni framtíð.
Upptaka:
Smellið hér til að sjá upptöku frá ráðstefnunni
Dagskrá ráðstefnunnar:
Máltækni í nútíð og framtíð - ávarp
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms
Íslenskan í alþjóðlegum tækniheimi - ávarp
Xuedong Huang, Technical Fellow and Chief Technology Officer Azure AI, Microsoft
Mikilvægi íslenskunnar í atvinnulífi og samfélagi - pallborð
- Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra
- Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
- Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Eyrir Venture Management og formaður stjórnar Almannaróms
AI and Language Learning - ávarp
Steven C. Toy, forstjóri Memrise
Íslenska sem annað mál - pallborð
- Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus
- Gamithra Marga, stofnandi TVÍK
- Nichole Leigh Mosty, forstöðumaður Fjölmenningarseturs
- Eydís Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Tiro
- Örn Úlfar Sævarsson, hugmyndasmiður og spurningahöfundur. Formaður fulltrúaráðs Almannaróms.
Betri þjónusta með gervigreind og máltækni - pallborð
- Anna Björk Nikulásdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Grammateks ehf.
- Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Krónunnar
- Erla Ósk Ásgeirsdóttir, forstöðumaður mannauðsmála hjá The Reykjavík Edition
- Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, Samtökum atvinnulífsins
Máltækni í daglegu lífi - pallborð
- Aðalsteinn Stefánsson, hönnuður á upplýsingatæknisviði Íslandsbanka
- Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Miðeindar ehf.
- Ragnheiður H. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Magga ehf. og stjórnarmaður Almannaróms
Getur máltækni tryggt mannréttindi? - pallborð
- Kolbrún Eir Óskarsdóttir, móðir drengs sem nýtir máltækni á hverjum degi í alla tjáningu
- Hrönn Birgisdóttir, Iðjuþjálfi og sérfræðingur á velferðasviði hjá Öryggismiðstöð Íslands
- Gunnar Thor Örnólfsson, sérfræðingur í talgervingu hjá Háskólanum í Reykjavík
- Hlynur Þór Agnarsson, aðgengis- og upplýsingafulltrúi Blindrafélagsins
- Björgvin Ingi Ólafsson, meðeigandi hjá Deloitte og stjórnarmaður Almannaróms
Máltæknivegferð Símans - ávarp
Orri Hauksson, forstjóri Símans
Lokaorð
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhendir Máltækniverðlaunin 2022.