ELG: Vettvangur evrópsks máltæknisamfélags

ELG

Fulltrúar frá níu evrópskum rannsóknarstofnunum ásamt litlum og meðalstórum fyrirtækjum hafa undanfarin misseri unnið að uppbyggingu Evrópska tungumálanetsins, ELG (European Language Grid). Stefnt er að því að ELG verði helsti vettvangur og markaðstorg evrópska máltæknisamfélagsins.

Sú máltækni sem ELG tekur til er meðal annars málvinnsla, (NLP), málskilningur (NLU) og spjallmenni (chatbot). Með notkun ELG-skýsins er þátttakendum í þessu mjög svo dreifða samfélagi, sem tekur bæði til rannsókna og iðnaðar, gert kleift að hlaða upp, sýna og bjóða áhugasömum aðilum tækni sína, hugbúnað og gögn, og einnig að nálgast aðra þátttakendur og málföng þeirra.

Stjórnandi ELG-verkefnisins er Dr. Georg Rehm, rannsóknastjóri og vísindamaður í Berlín. Rehm hélt erindi á ráðstefnu Almannaróms sem haldin var í maí síðastliðnum:

„Við stefnum að því að ELG vettvangurinn verði „gular síður“ og helsta sameiginlega markaðstorg hins dreifða evrópska máltæknisamfélags. Í fyllingu tímans mun ELG búa yfir skrá um alla hagsmunaaðila, frá tækniþróun til rannsóknasetra, frá litlum og meðalstórum fyrirtækjum til stórfyrirtækja.“

Dæmi um möguleika til nýtingar:

Notendur margs kyns þjónustu geta kynnt sér og prófað máltækniþjónustur á vef ELG og fellt þær inn í sín eigin kerfi og verkflæði í gegnum forritaskil.

Notendur gagna og þjónustu geta nálgast efnisskrá ELG gegnum forritaskil, leitað að málföngum og hlaðið þeim niður, t.d. til að nýta þau í eigin líkanaþjálfun.

Gagnaveitendur geta hlaðið málföngum upp í ELG-skýið og lýst þeim með hjálp ítarlegs lýsigagnasniðs til að gera þau aðgengileg öðrum.

Máltækniveitendur geta komið tækni sinni og hugbúnaði á framfæri á formi Docker-gáma, annaðhvort með því að setja Docker-myndina á ELG-skýið eða með því að nota staðgöngubiðlara sem framsendir beiðnir tilytri þjónustumiðlara.