„Við sýnum frumkvöðlaverkefnum mikinn áhuga og vildum hjálpa til“

 „Það er mín einlæga von að innan skamms verði hjákátlegt að tala ensku við tækin þegar við getum talað íslensku við þau.“

 

Í keppninni Reddum málinu sem lauk 16. nóvember síðastliðinn tóku nokkur fyrirtæki þátt sem stóðu sig gríðarlega vel í innlestri setninga. Kerecis var eitt þeirra. Starfsmenn fyrirtækisins lásu inn hvorki meira né minna en 33.657 setningar. Jón Páll Leifsson, sérfræðingur á markaðssviði Kerecis, sat fyrir svörum um þátttöku samstarfsmanna sinna í keppninni.

 

Hver var driffjöðurin á bak við frábæran árangur Kerecis í keppninni?

„Það er ákveðin tilhneiging hjá Kerecis að taka hlutina alla leið og þetta verkefni lenti einfaldlega í þeirri menningu. Íslensk máltækni er ekki sérstaklega notuð í okkar starfsemi, enska er meira að segja okkar aðal skjölunar-tungumál en þar sem Kerecis er í grunninn frumkvöðlafyrirtæki þá sýnum við svona frumkvöðlaverkefnum mikinn áhuga og vildum hjálpa til.“

 

Voruð þið með sérstakt fyrirkomulag á innlestri meðan á keppninni stóð?

„Við vorum með sérstaka spjall-rás á Zoom sem tileinkuð var þessari keppni þar sem við hvöttum hvort annað áfram og tókum skjáskot úr skemmtilegum setningum og deildum með öðrum þátttakendum. Í lokin voru svo einstaklingar innan Kerecis verðlaunaðir fyrir flestu innlesnu setningarnar og líka þær deildir sem voru með hæsta meðalfjölda innlesinna setninga.“

 

Var þetta stressandi - eða bara skemmtileg reynsla?

„Aðallega var þetta skemmtilegt en það er alltaf álag þegar þátttakendur taka keppni alvarlega. Einn úr okkar deild sem fór vel yfir 1000 innlesnar setningar, vaknaði daginn eftir aumur í hálsinum og sá sig knúinn til að fara í Covid-próf. Þetta reyndust vera væg álagsmeiðsli en ekki Covid.“

 

Hvað finnst þér áhugaverðast við máltækni og notkun íslensku í tækni?

„Hér svara ég sem einstaklingur en ekki fyrir hönd Kerecis. Það sem mér finnst áhugaverðast við máltækni almennt eru þeir möguleikar sem hún gefur til að auðvelda okkur lífið, auka aðgengi að upplýsingum og auðvelda skráningu upplýsinga. Aukið aðgengi fyrir fatlaða, blinda eða lesblinda að tæknilausnum finnst mér líka vera mjög stór partur af þeim ávinningi sem hlýst af framförum í máltækni. Mér finnst þetta verkefni Reddum málinu alveg frábært og er það mín einlæga von að innan skamms verði hjákátlegt að tala ensku við tækin þegar við getum talað íslensku við þau.“

Á myndinni eru Helga Krístín Einarsdóttir, Oddný Huld Halldórsdóttir og Óskar Vilmundarsson, sem veittu viðurkenningu fyrir þennan glæsilega árangur viðtöku.

Lesa um Kerecis