Menntaskólinn á Tröllaskaga, ELKO og Advania báru sigur úr býtum

Keppninni Reddum málinu! lauk í dag, á Degi íslenskrar tungu. Alls söfnuðust 366.241 raddsýni meðan á keppninni stóð en hún hófst 8. nóvember. Vinnustaðir kepptust við að lesa inn flestar setningar og voru 350 fyrirtæki og stofnanir skráð til leiks. Keppt var í þremur flokkum eftir stærð vinnustaða. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú afhentu sigurvegurum keppninnar viðurkenningar í móttöku á Bessastöðum á degi íslenskrar tungu. Forseti Íslands og forsetafrú eru verndarar Almannaróms.

Sigurvegarar keppninnar

Keppninni lauk með sigri Menntaskólans á Tröllaskaga, sem sigraði í flokki lítilla fyrirtækja, ELKO, í flokki millistórra fyrirtækja, og Advania í flokki stórra fyrirtækja.

Í heildina voru það starfsmenn Elko sem lásu flestar setningar eða alls 47.896, Menntaskólinn á Tröllaskaga las 42.470 setningar og starfsmenn Kerecis hf. lásu 33.657 setningar. Gríðarleg spenna myndaðist á lokasprettinum og var síðasti dagur keppninnar sá langstærsti til þessa, en þá voru lesnar upp 115.000 setningar. Alls tóku 2700 manns þátt en 69% raddsýnanna voru lesin af konum.

Hættum ekki hér!

Áfram má taka upp raddsýni og leggja verkefninu lið á www.samromur.is og eru karlmenn hvattir til að leggja verkefninu lið ásamt þeim sem tala íslensku ekki sem sitt móðurmál. Söfnun raddsýna, þróun á gagnagrunni með íslensku sem nota má til að kenna tölvum og tækjum að skilja íslensku og fleira er eitt mikilvægasta samstarfsverkefni þjóðarinnar.

Reddum málinu er samstarfsverkefni Almannaróms - Miðstöðvar máltækni, Háskólinn í Reykjavík og Símans. Átakið byggir á Samrómi, lausn sem safnar raddsýnunum saman.