Menningar- og viðskiptaráðherra skrifaði í gær undir nýjan samning við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um að gegna hlutverki miðstöðvar máltækni á Íslandi til ársins 2027. Almannarómur heldur utan um framkvæmd Máltækniáætlunar 2 fyrir hönd ráðuneytisins og vinnur markvisst að því að tryggja að íslensk tunga verði gjaldgeng í öllum samskiptum sem byggja á tölvu- og upplýsingatækni.
Samningurinn er gerður á grundvelli markaðskönnunar sem Ríkiskaup framkvæmdu fyrir ráðuneytið í byrjun mánaðar. Almannarómur var eini aðilinn sem lýsti yfir áhuga á verkefninu og gekk ráðuneytið í kjölfarið til samninga við stofnunina, sem fór einnig fyrir framkvæmd Máltækniáætlunar 1, fyrir hönd ráðuneytisins á árunum 2019-2023.
„Það gleður mig mjög að búið sé að tryggja Almannarómi traustan rekstrargrundvöll til næstu ára svo að öll sú kraftmikla máltæknivinna sem er í gangi er geti haldið ótrauð áfram. Þessi vinna snýst ekki aðeins um að við getum öll notað helstu forrit og tækni á okkar eigin tungumáli, heldur erum við að byggja brú á milli kynslóða. Tungumálið okkar er gersemi sem hefur varðveist í 1000 ár og er nú hluti af þróunarvinnu stærstu tæknirisa heims sem skilar sér í að tækninýjungar verða aðgengilegar fleirum en þeim sem eru færir í ensku og um leið varðveitir tungumálið okkar og eykur orðaforða,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
„Með samningnum tryggjum við áframhaldandi sókn fyrir tungumálið á stafrænum vettvangi. Almannarómur hefur unnið gríðarlega mikilvægt starf fyrir íslensku þjóðina síðustu ár. Þetta hefur birst meðal annars í samstarfi Íslands við OpenAI, um að gera íslenskuna aðgengilega í ChatGPT, sem stofnunin hefur tekið virkan þátt í auk alls þess árangurs sem hefur náðst í íslenskri máltækni,“ segir ráðherra.
Samningurinn er til þriggja ára og fylgir meðal annars eftir viðhald á þeim máltækniinnviðum sem smíðaðir voru undir fyrri máltækniáætlun stjórnvalda og framkvæmd með Máltækniáætlun 2. Þar að auki mun Almannarómur áfram vinna að kynningu á íslenskum máltæknilausnum fyrir almenning og atvinnulífið og stuðla að aukinni notkun hennar.