Vika íslenskrar tungu stendur yfir og í tilefni af því hefur Almannarómur ýtt úr vör átaki sem ber yfirskriftina: „Þín íslenska er málið“. Á tímum þar sem tæknin hreyfist hraðar með hverjum deginum og bylting hefur átt sér stað í samskiptum fólks vill Almannarómur hvetja fólk til þess að nota íslenskuna. Tungumálið hefur þróast með tímanum og íslenskan hefur verið spegilmynd íslensks samfélags í gegnum árhundruðin. Almannarómur vill leggja sitt á vogarskálarnar svo að íslenskan verði áfram spegilmynd okkar inn í framtíðina.
Íslenskan er ekki bara tungumálið okkar, heldur er það líka sameinandi afl. Íslenskan tengir okkur saman og gerir okkur einstök. Hún felur í sér menningu okkar, sögu og sérkenni. Málið hefur alltaf þurft að endurspegla umheiminn og okkar dýpstu hugarheima. Það hefur þróast með fólkinu, samfélaginu en ekki síst með tækninni. Átakið er áminning til fólks um að horfa fram veginn og taka þátt með okkur í sókn íslenskunnar.
Almannarómur er miðstöð máltækni á Íslandi og hefur frá 2014 unnið að því að búa íslenskunni framtíð í tækni. Þegar hefur mikill árangur náðst á því sviði. Búið er að byggja upp öfluga innviði í máltækni sem liggja til grundvallar margra máltækni- og gervigreindarlausna á íslensku. Almannarómur hefur einnig beitt sér fyrir því að tæknilausnir sem eru í daglegri notkun Íslendinga séu á íslensku, eins og gervigreind OpenAI og lausnir Microsoft. Þetta eru mikilvægir áfangasigrar sem búa íslenskunni framtíð í tækni.
Í kjölfar Dags íslenskrar tungu, sem er þann 16. nóvember næstkomandi, fer af stað heimildasöfnun á vegum Almannaróms sem miðar að því að styrkja innviði máltækni fyrir íslensku enn frekar. Heimildasöfnunin er unnin í samstarfi við Árnastofnun þar sem er verið að safna saman gögnum til þess að byggja upp Risamálheildina okkar.
Risamálheildin svokallaða er miðlæg grunnstoð máltækni á íslensku. Hana byggjum við upp til þess að hægt sé að þróa nákvæmari máltækni- og gervigreindarlausnir á íslensku. Við leitum til atvinnulífsins til þess að leggja íslenskunni lið og veita okkur aðgang að heimildum fyrir Risamálheildina.
Heimildasöfnunin snýr að hvers konar textagögnum á íslensku sem eru ekki viðkvæm frá fyrirtækjum. Þetta geta sem dæmi verið skýrslur af ýmsu tagi, starfsmannahandbækur, innri verklagsreglur og leiðbeiningar, almenn samningsform ef við á, rekstraryfirlit og allur annar texti sem fyrirtækið er tilbúið að deila og endurspeglar daglegt starf þess. Það eina sem skiptir máli er að textinn sé á íslensku.
Með þessum hætti fáum við inn í Risamálheildina raunsanna mynd af íslensku atvinnulífsins sem mun stuðla að enn nákvæmari tæknilausnum fyrir vikið. Fjölbreytt orðasöfn sem tengjast mismunandi atvinnugreinum færa okkur skrefinu nær því að tæknin verði reiprennandi í þinni íslensku.
Þín íslenska er málið er þannig tvennt í senn. Annars vegar er átakið vitundarvakning til Íslendinga um að taka þátt með okkur í sókn íslenskunnar og hins vegar ákall til atvinnulífsins um að byggja upp innviði máltækni á íslensku. Þannig búum við íslenskunni framtíð í tækni.


