Almannarómur inn í EDIH-IS

Miðstöð stafrænnar nýsköpunar á Íslandi (e. European Digital Innovation Hub) hefur hlotið styrk upp á rúmar 250 milljónir króna frá framkvæmdastjórn ESB. Almannarómur kemur nýr inn í næsta fasa verkefnisins sem hefst eftir áramót. Verkefnið verður leitt af Rannsóknamiðstöð Íslands – Rannís, í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Auðnu tæknitorg og Almannaróm.

Almannarómur inn í EDIH-IS

Miðstöð stafrænnar nýsköpunar á Íslandi (e. European Digital Innovation Hub) hefur hlotið styrk upp á rúmar 250 milljónir króna frá framkvæmdastjórn ESB. Almannarómur kemur nýr inn í næsta fasa verkefnisins sem hefst eftir áramót. Verkefnið verður leitt af Rannsóknamiðstöð Íslands – Rannís, í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Auðnu tæknitorg og Almannaróm.

Með styrknum mun miðstöðin, sem oft gengur undir skammstöfuninni EDIH-IS, halda sínu starfi áfram í þrjú ár til viðbótar. EDIH-IS er samstarfsvettvangur sem sameinar innlenda sérfræðiþekkingu og getu í gervigreind, notkun ofurtölva og netöryggi til að efla stafræna nýsköpun, bæði í opinbera- og einkageiranum. Samstarfsnetið miðar að því að stuðla að stafrænni umbreytingu í hinum ýmsu atvinnugreinum.

Áframhaldandi tenging við evrópskt þekkingarsamfélag mikilvæg fyrir Ísland

Heildarumfang verkefnisins er um hálfur milljarður íslenskra króna. Verkefnið er styrkt að helmingi af Digital Europe-áætlun Evrópusambandsins, sem veitir einnig aðgang að umfangsmiklu evrópsku þekkingarsamfélagi. Íslensku samstarfsaðilarnir leggja til hinn helminginn í formi vinnu, húsnæðis og verkefnafjármagns. Tilgangur verkefnisins er að bjóða áfram upp á þjónustu sem styður lítil og meðalstór fyrirtæki sem og opinberar stofnanir í stafrænum umbreytingum. EDIH mun vinna náið með nýrri miðstöð fyrir gervigreind og stórvirka tölvuvinnslu (e. HPC) á Íslandi ásamt því að styðja menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið við framkvæmd Aðgerðaráætlunar um gervigreind 2025-2027.

Máltækni hlýtur aukið vægi

Með aðkomu Almannaróms að verkefninu hlýtur íslensk máltækni aukið vægi í stafrænni nýsköpun og gervigreind. Með tilkomu stórra mállíkana hefur mikilvægi máltækni aukist verulega en síðustu ár hafa sprottið upp fjölmargar hagnýtar lausnir á því sviði sem gera íslenskum fyrirtækjum og stofnunum kleift að nýta sér nýjustu tækni á íslensku.

Almannarómur mun sinna mikilvægum stuðningi við uppbyggingu vistkerfis gervigreindar á Íslandi og út fyrir landsteinana og byggja þar á því starfi sem miðstöðin hefur unnið í kringum öflugt vistkerfi máltækni. Þar nýtast einnig verkefni Almannaróms á erlendri grundu; aðkoma að samnorrænu gervigreindarmiðstöðinni New Nordics AI, samstarf við UNESCO og samstarfsverkefni við stór erlend tæknifyrirtæki og fleiri erlenda aðila.

Helstu þjónustusvið, sem eru veitt án kostnaðar fyrir viðskiptavini EDIH-IS eru:

  • Þróun og prófun: Tækifæri til að prófa háþróaða tækni (t.d. gervigreind og ofurtölvur) áður en fjárfest er í slíkri tækni.
  • Ráðgjöf fyrir fyrirtæki og stofnanir: Aðstoð við notkun og innleiðingu á gervigreindarlausnum og HPC.
  • Hæfnimat og mat á stafrænum þroska: M.a. mat á stafrænni hæfni og mat á netöryggisgetu.
  • Menntun og þjálfun: Fræðsla um gervigreind, ofurtölvur og netöryggi fyrir fyrirtæki, opinbera aðila og almenning.
  • Fjármögnun og styrkir: Aðstoð við að finna fjármögnun, t.d. evrópska styrki, fyrir stafræn nýsköpunarverkefni.

EDIH á Íslandi hóf starfsemi sína haustið 2022. Samstarfsaðilar fyrstu lotu verkefnisins voru Rannís, Auðna tæknitorg, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Syndis og Origo. Á þeim tíma hefur EDIH-IS þjónustað fjölmörg fyrirtæki og opinberar stofnanir ásamt því að halda fjölbreytta fræðsluviðburði fyrir almenning.

„Við höldum okkar verkefni ótrauð áfram og styðjum við íslensk fyrirtæki og stofnanir sem vilja taka skrefið inn í stafræna framtíð með öruggari og markvissari hætti. Næstu þrjú ár eru kjörið tækifæri til að auka samkeppnishæfni íslenskra aðila á alþjóðavettvangi,“ segir Kolfinna Tómasdóttir, verkefnastjóri EDIH á Íslandi. „Það skiptir sköpun fyrir framtíðarvöxt íslensks atvinnulífs að hafa möguleika á að prófa, þjálfa og innleiða nýjustu stafrænu lausnirnar, eins og gervigreind og ofurtölvur, á öruggan og ábyrgan hátt. Það er frábært að sjá áherslu stjórnvalda á þennan málaflokk, en með þátttöku Íslands í EDIH-netinu opnast einnig dyr að evrópsku þekkingarsamfélagi þar sem við getum bæði lært af öðrum og miðlað eigin styrkleikum.“

Ísland leiðir nýjan vinnuhóp

EDIH-IS mun leiða nýjan vinnuhóp innan Evrópu, Women in AI, sem leggur áherslu á að auka fjölbreytni í tæknigeiranum. Vinnuhópurinn verður með það markmið að styrkja konur til að móta framtíð gervigreindar ásamt því að skapa tækifæri til uppbyggingar, tengslamyndunar og stefnumarkandi samstarfs. Vinnuhópurinn mun þannig stuðla að því að gervigreindarlausnir verði þróaðar út frá breiðari sjónarhornum, en í dag er talið að einungis 20% þeirra sem starfa á sviði gervigreindar séu konur. Undirbúningsvinna fyrir vinnuhópinn er nú þegar hafin og hafa fjölmörg Evrópuríki lýst yfir stuðningi sínum við stefnu hans.

Samstarfsaðilar verkefnisins

Rannís gegnir tvíþættu hlutverki í verkefninu. Rannís fer með verkefnastjórn á EDIH-IS og styður þannig við áframhaldandi uppbyggingu verkefnisins. Stofnunin leiðir einnig þann hluta EDIH-IS sem snýr að aðgangi að fjármagni og aðstoðar aðila m.a. við að sækja um evrópska styrki fyrir stafræn nýsköpunarverkefni. Rannís leiðir einnig vinnuhópinn Women in AI.

Almannarómur er nýr þátttakandi í EDIH-IS. Almannarómur mun sinna mikilvægum stuðningi við uppbyggingu vistkerfis gervigreindar á Íslandi og út fyrir landsteinana, en Almannarómur er einnig stofnaðili samnorrænu gervigreindarmiðstöðvarinnar New Nordics AI sem styrkir norrænt samstarf og ábyrga þróun gervigreindar.

Auðna tæknitorg stendur reglulega fyrir vinnustofum og námskeiðum fyrir háskólasamfélagið, rannsakendur og styrkþega rannsóknarsjóða. Þá leggja þau áherslu á tækniyfirfærslu fyrirtækja og stofnana, m.a. með ráðgjöf við markaðsstarf, hugverkavernd og samningagerð.

Háskóli Íslands er leiðandi í stórtækri tölvuúrvinnslu og heldur áfram að tengja saman vísindamenn, iðnað og stofnanir sem nota stórtæka tölvuúrvinnslu í rannsóknum og nýsköpunum. HÍ gegnir einnig lykilhlutverki í ráðgjöf til fyrirtækja og stofnana ásamt fræðslu og menntun, þróun og aðlögun gervigreindarlausna og prófana og hefur gríðarlega reynslu af stórum evrópskum samstarfsverkefnum.

Háskólinn í Reykjavík býður áfram upp á meistaranám í gervigreind sem sett var á laggirnar í fyrri lotu EDIH-IS. Í náminu er lögð áhersla á siðferðilega nálgun á gervigreind í samræmi við evrópsk gildi. HR býður upp á frábæra og sérhæfða aðstöðu til rannsókna, þróana og prófana á gervigreindarlausnum, ásamt því að fræða almenning, fyrirtæki og stofnanir um gervigreind.

Ofangreindir fimm samstarfsaðilar verkefnisins munu saman þróa þjónustu EDIH enn frekar og efla þannig tækifæri um notkun gervigreindar á Íslandi.